Upplýsingar
Villamartin er einn þekktasti og skemmtilegasti golfvöllur Spánar. Hann var vígður með viðhöfn árið 1972, 6132 metrar á lengd, par 72; brautirnar lagðar Bermúda-grasi og flatirnar með Pennacross. Hönnuður vallarins er Paul Putman; sá golfari sem hefur komið á Costa Blanca hefur heyrt um hinn gamalgróna Villamartin. Og hafa hann í hávegum.
Þegar golfarar mæta til leiks tekur glæsilegt klúbbhúsið á móti þeim; glæsilegur veitingastaður með útsýni yfir 18 flötina, verslun, æfingasvæði og púttvöllur: Allt eins og best verður á kosið til að koma þér í gírinn. Þegar sá sem þetta skrifar var þar á ferð var sérstakur maður tilbúinn og bauð uppá þrif á kylfum áður en haldið var á 1. teig. Allt er þannig úr garði gjört að ef menn komast ekki í sinn besta golfham er eitthvað að.
Villamartin er staðsettur á hæð í grennd við ströndina milli Torrevieja og Murica-flugvallarins og fyrstu níu holurnar eru leiknar í töluverðri hæð þannig að víða er stórkostlegt útsýni yfir Miðjarðarhafið. Seinni níu holurnar eru leiknar í skógi vöxnu dalverpi, þar setja gljúfur og gil sitt mark á hönnun vallarins sem vitaskuld hefur sín áhrif á leikinn. Hönnun vallarins er þannig að flestar kylfur í pokanum hljóta að koma við sögu, fjölbreytilegar brautir og flatir. Vilji menn fá sem allra mest út úr því að leika Villamartin er um að gera að skoða hann vel áður og leggja upp leikskipulag.
Villamartin er í uppáhaldi hjá mörgum kylfingum, og sem einn viðurkenndasti golfvöllur Spánar hafa þar, í tæplega hálfrar aldar sögu vallarins, vitaskuld verið haldin ófá mikilvæg mót, svo mörg reyndar að of langt er upp að telja. Völlurinn er gróinn og steinsnar frá má finna margar skemmtilegar krár og veitingastaði hvar upplagt er að fara yfir leikinn.