Aftur á yfirlitssíðu

Las Ramblas

Holur: 18
Lengd: 5807 metrar
Par 72
Upplýsingar

Las Ramblas er sannarlega ævintýralegur völlur – annað hvort elska golfarar að hata völlinn eða elska hann skilyrðislaust. Sem þýðir þá einfaldlega það að þetta er völlur sem allir golfarar verða að reyna sig á. Í það minnsta einu sinni.

Um er að ræða völl sem vígður var 1991, er par 72, 5807 metra langur og staðsettur milli tveggja mikilla gljúfra í námunda við strönd Miðjarðarhafsins. Einsleitni er orð sem að manni ætti ekki einu sinni að detta í hug þegar þessi völlur er annars vegar. Brautir og flatir hver um sig eru einstakar. Öll umhirða og viðhald er þarna til fyrirmyndar. 

Hönnuðurinn Pepe Gancendo hefur hlotið mikið lof fyrir mikla útsjónarsemi við útfærslu vallarins í þessu mikla landslagi, umhverfið er vaxið furutrjám og svo náttúrulegum vatnsfarvegum og niðurstaðan er óhjákvæmilega ákaflega krefjandi völlur. Á völdum stöðum hafa snjallir innfæddir sölumenn komið sér fyrir og selja golfkúlur í netpokum; nokkuð sem margir þiggja fegins hendi eftir að hafa mátt sjá á eftir kúlum sínum ofan í djúpa árfarvegi.

Hér skiptir öllu máli að vita hvað maður er að gera; leikskipulag þarf að vera á hreinu og svo náttúrlega getan til að slá þannig að skipulagið haldi. Lesandinn er líklega búinn að reikna það út að hér skiptir andlega hliðin, þessi sem gerir golfið að því sem það er, öllu máli: að halda haus. Á Las Ramblas munu golfarar komast að því úr hverju þeir eru gerðir. Að sigra völlinn er að sigra sjálfan sig.

Allir viðskiptavinir Spánarheimlis sem eru í
Vildarklúbbnum njóta afsláttarkjara á vallargjöldum í gegnum GÍS.