Aftur á yfirlitssíðu

Campoamor

Holur: 18
Lengd: 6277 metrar
Par 71
Upplýsingar

Campoamor-golfvöllurinn er alveg einstaklega friðsæll og vinalegur golfvöllur. Hann er staðsettur í ákaflega fögru umhverfi, skógi vöxnu – fimm kílómetra frá ströndinni, en í góðu skjóli frá hafgolunni og í tíu kílómetra fjarlægð frá flugvellinum í Alicante.

Völlinn hannaði Carmelo Cqarcía Caselles og var hann vígður árið 1989, þannig að um er að ræða allgróinn völl sem margir Íslendingar þekkja vel; golfarar hafa verið duglegir að heimsækja Torrevieja-svæðið í gegnum tíðina og ekki að ástæðulausu. Völlurinn er 6203 metra langur og par 72.

Þó Campoamor sé skógarvöllur, pálma- og appelsínutré ramma brautirnar inn, eru fæstar brautanna þröngar og völlurinn víðast hvar ekki refsiglaður. Ættu flestir að geta notið þess að spila völlinn burtséð frá því hversu langt þeir eru komnir í íþróttinni góðu. Fyrri níu holum vallarins má lýsa þannig en seinni níu eru fjölbreyttari en þar liggur völlurinn í meira landslagi. Má til dæmis nefna 11. holuna en þar geta þeir hinir djarfari og högglengri stytt sér leið yfir skóg inná flöt með velheppnuðu skoti. Og átt jafnvel möguleika á erni.

Einkennandi fyrir völlinn er einstaklega glæsilegt klúbbhús sem tengist fjögurra stjörnu hóteli sem þarna stendur. Sérlega gott veitingahús er við völlinn og á veröndinni þar fyrir framan má sjá til strandarinnar, frá Torrevieja til La Manga del Mar Menor, ef skyggni er gott. Góð æfingaaðstaða er við völlinn en á þar hefur hinn vinsæli golfþjálfari Ívar Hauksson starfað sem yfirkennari. Vart er hægt að hugsa sér betri stað til að bæta sitt golf en einmitt á Campoamor.

Sjá staðsetningu

Allir viðskiptavinir Spánarheimlis sem eru í
Vildarklúbbnum njóta afsláttarkjara á vallargjöldum í gegnum GÍS.