Aftur á yfirlitssíðu

Alenda golf

Holur: 18
Lengd: 6257 metrar
Par 72
Upplýsingar

Alenda-golfvöllurinn var vígður árið 1997, par 72, 6.257 metra langur völlur og er hönnuður vallarins Roland Favrat. Hann lagði ríka áherslu á að völlurinn væri í ýtrustu sátt við umhverfið, völlurinn liggur í hlíðum Aguilas-fjöll við Miðjarðarhafið sem þýðir að það er talsvert landslag í Alenda-golfvellinum auk þess sem njóta má útsýnis yfir hafið. Völlurinn var opnaður árið 1999 þannig að hann telst ekki gamall en þó vel gróinn. 

Völlurinn er vel hannaður sé litið til þess að ekki er langt frá flöt og teigs næstu holu. Þannig að það ætti að vera hægt að halda ágætum leikhraða á Alenda. Fyrstu níu holurnar eru tiltölulega þægilegar, miðlungslangar með víðum brautum sem rammaðar eru inn með carob-, pálma- og furutrjám en völlurinn tekur nokkrum stakkaskiptum á seinni níu holunum; þar þrengist um og þá þurfa kylfingar að hafa einbeitinguna í fullkomnu lagi; þar skiptir meiru máli að vera á braut en slá langt.

16. og 18. holan eru varhugaverðar og geta hæglega rústað góðu skorkorti. Flatirnar á þessum mjög svo skemmtilega velli eru áhugaverðar. Þær eru hraðar og talsvert landslag í þeim, þannig að menn þurfa að reikna út púttlínuna af nokkurri kúnst. 

Þetta er völlur sem er í uppáhaldi margra sem hann hafa spilað, hann þykir henta vel flestum hvar svo sem þeir eru staddir með sína forgjöf. Og er umhirða og viðhald á vellinum með ágætum.

Við völlinn er að finna afbragðs æfingaaðstöðu, púttvöll, sérhæfða verslun fyrir kylfinga, glæsilegan veitingastað þar sem lögð er áhersla á Miðjarðarhafsmatseðil og ljómandi kaffihús þar sem fá má kaffi eða kaldann út á verönd með ljómandi útsýni yfir golfvöllinn.

Allir viðskiptavinir Spánarheimlis sem eru í
Vildarklúbbnum njóta afsláttarkjara á vallargjöldum í gegnum GÍS.