Costablanca NorÐur
Norðurhluti Costa Blanca svæðisins einkennist af miklu fjalllendi og einstakri strandlínu með fallegum litlum strandbæjum og eftirminnilegum fjallaþorpum. Einnig er það einkennandi fyrir þetta svæði að öll byggð er lágreist og að greina má annan byggingarstíl húsa á þessu svæði. Fasteignir á svæðinu eru einnig oft mun veglegri og íburðarmeiri en þekkist á Costa Blanca suður svæðinu en flest hús á þessu svæði bera hinn svokallaða “ valencia byggingarstíl”.
Helstu stórborgir svæðisins eru Alicante í suðri og Valencia í norðri en þær tengjast hvor annarri með hraðbrautinni A7 sem í raun nær alveg frá landamærum Frakklands í norðri og syðsta odda Spánar í suðri. Af hraðbrautinni liggja síðan aftur margar afreinar í ýmsa strandbæi sem vert er að heimsækja. Gamli þjóðvegurinn N-332 liggur meðfram allri strandlengjunni og í gegnum alla strandbæi og borgir sem liggja við Miðjarðarhafið. Það getur verið stórfenglegt að aka strandlengjuna og gefa sér tíma í að koma við í strandbæjunum og upplifa spænska menningu beint í æð.
Á þessu svæði upplifir maður oftar en ekki hinn gamla Spán ef svo má að orði komast en bæir eins og Denia, Javea, Altea, Calpe og Albir hafa mikla sögu og rómatík. Hvað er betra en að rölta um þröngar götur og stræti í miðbæ þessara gömlu bæja og virða fyrir sér söguminjar um leið og fylgst er með litlum fiskibátunum sigla inn og út og bera að bryggju hið fræga sjávarfang sem veitingastaðirnir bera fram samdægurs.
Benidorm tilheyrir Cosat Blanca norður svæðinu og sker hún sig frá öðrum svæðum í kring þar sem borgin er mjög háreist og oft verið kölluð “New York” Evrópu. Benidorm er stærsti ferðamannastaðurinn á Costa Blanca svæðinu. Borgin hefur verið einn vinsælasti sumardvalarstaður Evrópubúa til margar ára en hún sameinar þægilegt strandlíf og fjörugt og eftirminnilegt næturlíf. Fólk flykkist til borgarinnar til að skemmta sér, njóta tilverunnar og drekka í sig sólina. Borgin hefur endalausa valkosti og ekki einvörðungu fyrir skemmtanaþyrsta einstaklinga heldur fyrir alla fjölskylduna.