Svæðið

Costa Blanca ströndin eða "Hvíta ströndin" eins og hún nefnist í íslenskri þýðingu liggur við suðaustur strönd Spánar og teygir sig 200 km meðfram Miðjarðarhafinu. Hvíta ströndin er í Valencia sýslu og skiptist hún niður í 3 sjálfstjórnahéruð sem viðkomandi höfuðborgir heita eftir. Castellon í norðri, þá Valencia og síðan Alicante í suðri. Oft er miðað við að Costa Blanca svæðið afmarkist við borgirnar Valencia í norðri og Murcia eða Cartagena í suðri.

Costa Blanca norður svæðið.

Norðurhluti Costa Blanca svæðisins einkennist af miklu fjalllendi og einstakri strandlínu með fallegum litlum strandbæjum og eftirminnilegum fjallaþorpum. Einnig er það einkennandi fyrir þetta svæði að öll byggð er lágreist og að greina má annan byggingarstíl húsa á þessu svæði. Fasteignir á svæðinu eru einnig oft mun veglegri og íburðarmeiri en þekkist á Costa Blanca suður svæðinu en flest hús á þessu svæði bera hinn svokallaða “ valencia byggingarstíl”.

Helstu stórborgir svæðisins eru Alicante í suðri og Valencia í norðri en þær tengjast hvor annarri með hraðbrautinni A7 sem í raun nær alveg frá landamærum Frakklands í norðri og syðsta odda Spánar í suðri. Af hraðbrautinni liggja síðan aftur margar afreinar í ýmsa strandbæi sem vert er að heimsækja. Gamli þjóðvegurinn N-332 liggur meðfram allri strandlengjunni og í gegnum alla strandbæi og borgir sem liggja við Miðjarðarhafið. Það getur verið stórfenglegt að aka strandlengjuna og gefa sér tíma í að koma við í strandbæjunum og upplifa spænska menningu beint í æð.

Á þessu svæði upplifir maður oftar en ekki hinn gamla Spán ef svo má að orði komast en bæir eins og Denia, Javea, Altea, Calpe og Albir hafa mikla sögu og rómatík. Hvað er betra en að rölta um þröngar götur og stræti í miðbæ þessara gömlu bæja og virða fyrir sér söguminjar um leið og fylgst er með litlum fiskibátunum sigla inn og út og bera að bryggju hið fræga sjávarfang sem veitingastaðirnir bera fram samdægurs.

Benidorm tilheyrir Cosat Blanca norður svæðinu og sker hún sig frá öðrum svæðum í kring þar sem borgin er mjög háreist og oft verið kölluð “New York” Evrópu. Benidorm er stærsti ferðamannastaðurinn á Costa Blanca svæðinu.  Borgin hefur verið einn vinsælasti sumardvalarstaður Evrópubúa til margar ára en hún sameinar þægilegt strandlíf og fjörugt og eftirminnilegt næturlíf. Fólk flykkist til borgarinnar til að skemmta sér, njóta tilverunnar og drekka í sig sólina. Borgin hefur endalausa valkosti og ekki einvörðungu fyrir skemmtanaþyrsta einstaklinga heldur fyrir alla fjölskylduna.

Costa Blanca suður svæðið.  

Oft er talað um að Costa Blanca suður svæðið afmarkist af borginni Alicante í norðri og Murcia og Cartagena í suðri. Svæðið stendur flestum Íslendingum nærri en Costa Blanca norðursvæðið þar sem þúsundir Íslendinga eiga fasteignir á þessu svæði og er vinsælustu og stærstu sumarhúsahverfi Spánar á þessu svæði.

Costa Blanca suðursvæðið er mjög víðfemt svæði þar sem landslagið er láglendara en norðursvæðið. Einkenni þessa svæðis hefur löngum verið strandirnar og saltvötnin en flestar strandir þessa svæðis hafa verið verðlaunaðar með Bláa Fánanum frá Evrópusambandinu. Til að hljóta þennan heiður þurfa svæði að uppfylla strangar kröfur um hreinleika sjávar, aðbúnað og fleira.
Löngum hefur verið vinsælt að baða sig í saltvötnunum vegna góðra áhrifa leðjunnar og saltsins gagnvart hinum ýmsu sjúkdómum eða svipað og íslendingar þekkja frá Bláa Lóninu
.
Það má einnig segja að það sé eftirtektarvert hve uppbygging hefur verið hröð og mikil á Costa Blanca suður svæðinu. En mesti hagvöxtur fyrir nokkrum árum innan Spánar og Evrópu var á Costa Blanca suður svæðinu. Mikið var byggt og því mikið um nýlegar byggingar og ný hverfi sem teygja sig æ meira suður á bóginn meðfram strandlengjunni og inn í land. Öll hverfi eru lágreist en íbúum svæðisins fer stöðugt fjölgandi þar sem æ fleiri evrópubúar hafa uppgötvað kosti svæðisins og flytjast búferlum til að skjóta þar rótum.

Costa Blanca suður svæðið nær yfir alla flóruna eða allt frá dæmigerðum spænskum þorpum til stórra nútímalegra borga og bæja. Þess má og geta að víða hafa alþjóðleg fyrirtæki og verslanir opnað útibú á þessu svæði en fyrirtæki þessi hafa verið þess áskynja hve evrópubúum hefur fjölgað hratt á svæðinu enda það oftar en ekki kallað “Litla Evrópa” vegna fjölda evrópubúa sem búa á svæðinu. Í mörgum bæjum á Costa Blanca suður svæðinu eru útlendingar í meirihluta og meira að segja hafa útlendingar í sumum bæjum náð inn meirihluta í bæjarstjórnum.  

Segja má að Alicante sé þekktasta borg Costa Blanca svæðisins.  Íbúafjöldi hennar er um 300.000 en borgin hefur farið ört stækkandi síðustu ár og er nú vel þekkt hjá ferðamönnum sem frábær staður til að tengja saman sólar- og stórborgarferð. Alicante státar af fallegum ströndum líkt og öll Costa Blanca ströndin gerir.
Saga borgarinnar nær aftur til forn-Grikkja og Rómverja. Borgin býður upp á fallega kastala og 18. aldar byggingar sem vert er að skoða. Nautaatshringur borgarinnar er einn sá elsti á Spáni og er hann ennþá í notkun. Gamli hluti borgarinnar er hálfgert völundarhús lítilla gatna sem liggja upp í fjallshlíðar. Við þessar götur eru marglitaðar byggingar með eintómum litlum svölum. Þegar upp er komið bíður manns stórglæsilegt útsýni yfir borgina og flóann en höfnin hefur alltaf spilað mikilvægt hlutverk fyrir borgarbúa. Hér áður fyrr var hún einnig notuð fyrir Madrid í inn- og útflutningi en í dag er hún að litlum hluta löndunarstaður en aðallega eru þar siglingarklúbbar, snekkjuhöfn, veitingastaðir og iðandi mannlíf.

Alicante flugvöllurinn er rétt við borgina og er hann aðal flugvöllur svæðisins en allt innanlands- og evrópuflug fer einnig í gegnum hann. Bæði Wowair og Primeraair bjóða upp á beint flug frá Íslandi til Alicante allt árið um kring fyrir utan 2 mánuði á ári.  

Torrevieja borg er við Costa Blanca ströndina mitt á milli Alicante til norðurs og Cartagena til suðurs. Torrevieja og svæðið um kring hefur verið hratt vaxandi borg þar sem íbúðar- og verslunarbyggingar hafa sprottið upp í hundruða tali í allar áttir frá borginni. Margir íslendingar þekkja Torrevieja vel enda eiga þúsundir íslendinga fasteignir á þessu svæði. Torrevieja svæðið er svæðið í kringum borgina sjálfa sem og hin nýju íbúðahverfi hafa risið undanfarin ár og eru enn að rísa. Þessi svæði eru í raun nokkur bæjarfélög í kringum borgina og heita ýmsum nöfnun en flestir íslendingar tengja sig við Torrevieja borgina. Íbúar Torreviejasvæðisins eru af öllum þjóðernum en opinber íbúatala Torrevieja borgar er ekki nema rétt um 100.000 en sú tala margfaldast eða upp í 500.000 yfir sumarmánuðina þegar ferðamennirnir streyma að, en ferðamannaiðnaðurinn en aðal tekjulind borgarinnar.

Torreviejasvæðið er mjög víðfemt svæði eins og áður segir og er það markaðssvæði sem Spánarheimili horfir helst til fyrir sína viðskiptavini enda er hér um að ræða stærsta sumarhúsahverfi sem reist hefur verið á Spáni. Það eru ekki aðeins evrópubúar sem sækjast eftir sumarhúsum á þessu svæði heldur hafa spánverjar búsettir inn í landi sótt mjög á þetta svæði og fjárfest í sumarhúsum.

Torreviejasvæðið skiptist niður í nokkur íbúðasvæði þar sem nokkuð framboð er af fasteignum til sölu og sjá má á söluskrá Spánarheimilis, en nefna má svæði eins og: Punta Prima, Los Altos, Dream Hills, Los Balcones, San Luis, Torreta, La Mata, Cabo Roig,  Playa Flamenca, La Zenia, Dona Pepa, Aquamarina og þannig mætti lengi telja.
Hverfaskipulag er mjög gott í þessum íbúðahverfum en öll hverfi eru byggð þannig upp að íbúar í hverju íbúðahverfi hafa ávalt í göngufæri verslunar- og þjónustukjarna þar sem finna má úrval veitingastaða, bari, banka, sérverslanir, matvörubúðir og aðra þjónstuaðila. Frá öllum þessum íbúðahverfum tekur yfirleitt ekki nema um 5-15 min að keyra niður í miðbæ Torreviejaborgar þar sem finna má enn meira iðandi mannlíf og úrval veitingastaða og verslana.

Íslendingar hafa fjárfest í sumarhúsum mjög víða á Torreviejasvæðinu og í hinum ýmsum íbúðarhverfum og dreifast því nokkuð vel yfir svæðið. Íslendingasamfélagið á svæðinu er nokkuð virkt og eru haldnar reglulegar samkomur og hittingar á svæðinu. Skemmtilegt og fræðandi er að fylgjast með lífi Íslendinga á Spáni í gegnum heimasíðuna www.costablanca.is

Önnur svæði

Spánarheimili býður einnig Íslendingum til sölu fasteignir á öðrum svæðum en á Torreviejasvæðinu. Það hefur til að mynda verið nokkuð vinsælt að fólk fjárfesti í sumarhúsum aðeins fjarri ströndinni og komi sér fyrir í smábæjum og þorpum þar sem rólegra yfirbragð er yfir öllu. Nefna má bæi eins og San Miguel, Algorfa, Pilar de La Horadada, Rojales, La Nucia, Castalla, Los Alcazares, Albir, La Marina og fleiri skemmtilega bæi.

Einnig er vert að nefna það að lokum að á Costa Blanca ströndinni eru á fjórða tug hágæða golfvalla en í flest öllum tilvikum hafa myndast mikil og stór íbúðasvæði í kringum þessa velli. Slík golfsvæði eru þá í mörgum tilvikum aflokuð fyrir utanaðkomandi umferð og með gæslu allan sólarhringinn. Sem þekkta og vinsæla golfvelli og golfsvæði á Costa Blanca svæðinu má nefna Alicante golf, La Finca golf, Las Ramblas golf, Campoamor golf resort, Villa Martin golf og Las Colinas golf resort

Að lokum er Spánarheimili að bjóða Íslendingum upp á fasteignir til sölu á áður óþekktum svæðum en nefna má fasteignir í spænsku strandbæjunum San Pedro og Los Alcazares þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað í allri ferðaþjónstu en evrópubúar eru enn að uppgötva.

Tenerife

 

Tenerife, sem er stærst Kanaríeyjanna, býður upp á frábærar aðstæður og er sannkölluð paradísareyja þar sem jafnt og gott veðurfar 

eyjarinnar er hennar helsta aðdráttarafl. Á Tenerife eru fallegar strendur,  fjölbreytt afþreying og stórbrotin náttúra ásamt fjölda verslana og verslunarmiðstöðva með þekktum vörumerkjum. Höfuðborg Tenerife er Santa Cruz er staðsett á norð- austurhlua eyjarinnar en á 

suðvesturströnd Tenerife eru vinsælu strandsvæðin þrjú: Costa Adeje, Los Cristianos og Playa de las Americas.

Suðurhluti Tenerife er afar vinsæll þegar kemur að því að velja sér sitt annað heimili eða til búsetu allt árið um kring.  Úr mörgu eru að velja þegar hugað er að því að fjárfesta í húsnæði á Tenerife. Fasteign staðsett við gyllta strönd og iðandi mannlíf eða við golfvöll á meðan aðrir vilja krúttast í litlu þorpi í hjarta spænskrar menningar og fjarri iðandi mannlífi. Við búum yfir yfirgripsmikilli þekkingu á þessum svæðum og leggjum okkur fram við að finna þá stemmningu sem óskað er eftir. 

Sölusvæðið sem Spánarheimili leggur áherslu á eru :

Los Gigantes – Playa San Juan – Callo Salvaje – La Caleta – Costa Adeje – Las Americas – Los Cristianos – Las Galletas – Amarilla Golf – Los Abrigos. 

Góðar beinar flugsamgöngur eru á milli Íslands og Tenerife en flugfélögin Primeaair, Icelandair og Wowair halda uppi góðum flugsamgöngum á milli landanna. 

Spænski listamannabærinn Altea
Strandbærinn Calpe
Benidorm of kölluð New York evrópu
Fjöldi golfvalla á Costa Blanca
Alicante borg er vanmetin borg
Torrevieja borg
Torreviejasvæðið er mjög víðfemt.
Torreviejasvæðið liggur með strandlengjunni.
Endalaus afþreying
Mikið úrval góðra veitingastaða
Tenerife