Golf

Costa Blanca-svæðið er sannkölluð paradís kylfingsins en á bæði norður- og suðursvæðinu má finna rúmlega 30 golfvelli. Þeirra á meðal eru bestu golfvellir Spánar, vellir sem hafa hlotið alþjóðlegar viðurkenningar sem slíkir á undanförnum árum. Úrvalið er einstakt, hver völlur um sig einstakur og fjölbreytileikinn mikill. Margir íslenskir kylfingar þekkja vel til á svæðinu enda hafa íslenskar ferðaskrifstofur boðið upp á skipulagðar golfferðir á marga þeirra nú í tugi ára. Þá hafa fjölmargir íslenskir kylfingar fest kaup á fasteignum á þessu svæði meðal annars vegna þessarar einstöku flóru golfvalla sem finna má á til þess að gera litlu svæði; ekki þarf að leggjast í mikil ferðalög til að komast á ólíka golfvelli. Í flestum tilvikum er golfvöllur innan 10 til 15 mínútna keyrsluradíuss frá orlofshúsinu en á stærstu orlofshúsasvæðunum á Costa Blanca-svæðinu má finna golfvöll nánast í bakgarðinum.

 

 

Allir viðskiptavinir Spánarheimila fá aðgang að Vildarklúbbi Spánarheimila og þannig vildarkjör á vallargjöldum golfvalla sem og tengdri þjónustu. Einnig eru reglulegir „hittingar“ skipulagðir hjá Vildarklúbbnum þar sem slegið er í léttleikandi golfmót hvar landinn hefur gaman saman. 

Hér neðar getur að líta þægilega lýsingu á nokkrum golfvöllum á Costa Blanca-svæðinu. Þeir voru valdir af handahófi, svona rétt til gefa íslenskum kylfingum hugmynd um hvers má vænta.

Las Colinas

Las Colinas er perlan meðal fjölmargra glæsilegra golfvalla á Alicante-svæðinu. Margverðlaunaður og í hávegum hafður meðal allra þeirra sem hann hafa spilað. Þá má nefna að völlurinn hefur verið notaður í evrópsku mótaröðinni, ekki að ófyrirsynju.

Um er að ræða golfvöll sem er par 71 og hannaður af Cabell B. Robinson, sem á heiðurinn af þekktum golfvöllum á borð við La Reserva í Sotogrande og Finca Cortesin á Costa del Sol á Spáni, svo einhverjir séu nefndir.

Völlurinn er til þess að gera nýr – hann var tekinn í notkun 2010 –liggur í hring í dalverpi og er umlukinn hæðum. Er sérstaklega lagt uppúr því af Robinson að völlurinn falli inn í landslagið. Hver hola sérstök. Þeir sem kunna spænsku vita að colinas þýðir hólar; völlurinn er langt í frá flatneskjulegur. Þeir sem spila Las Colinas taka eftir því að öll umhirða er til fyrirmyndar, niður í smæstu atriði þannig að unun er að fara þar um. Í klúbbhúsinu má finna góðan veitingastað og bar. Þar er að finna allt sem nöfnum tjáir að nefna og tengist golfiðkun – þetta nálgast að mega heita paradís golfarans og er erfitt er að stilla sig um að nota efsta stig lýsingarorða þegar reynt er að lýsa Las Colinas.

Fjölbreyttur gróður og landslag umlykja völlinn en einkennandi eru hólar, drifahvítar sandglompur og svo tjarnir og aðrar vatnshindranir.

Erfitt er að taka einhverja eina holu eða braut út úr til dæmis, þær eru allar skemmtilegar og hafa sín sérkenni en þó má nefna par 3 holurnar sem eru sérlega eftirminnilegar; 7. brautin er stutt eða um 100 metrar og 14. hola sem er ákaflega krefjandi, varin af læk sem rennur framan við flötina, vatni á vinstri hönd og risasandglompu á hægri hönd – hindranir eru allt í kringum flötina. Brautin sú er 155 m af gulum og 124 m af rauðum.Campoamor

Campoamor-golfvöllurinn er alveg einstaklega friðsæll og vinalegur golfvöllur. Hann er staðsettur í ákaflega fögru umhverfi, skógi vöxnu – fimm kílómetra frá ströndinni, en í góðu skjóli frá hafgolunni og í tíu kílómetra fjarlægð frá flugvellinum í Alicante.

Völlinn hannaði Carmelo Cqarcía Caselles og var hann vígður árið 1989, þannig að um er að ræða allgróinn völl sem margir Íslendingar þekkja vel; golfarar hafa verið duglegir að heimsækja Torrevieja-svæðið í gegnum tíðina og ekki að ástæðulausu. Völlurinn er 6203 metra langur og par 72.

Þó Campoamor sé skógarvöllur, pálma- og appelsínutré ramma brautirnar inn, eru fæstar brautanna þröngar og völlurinn víðast hvar ekki refsiglaður. Ættu flestir að geta notið þess að spila völlinn burtséð frá því hversu langt þeir eru komnir í íþróttinni góðu. Fyrri níu holum vallarins má lýsa þannig en seinni níu eru fjölbreyttari en þar liggur völlurinn í meira landslagi. Má til dæmis nefna 11. holuna en þar geta þeir hinir djarfari og högglengri stytt sér leið yfir skóg inná flöt með velheppnuðu skoti. Og átt jafnvel möguleika á erni.

Einkennandi fyrir völlinn er einstaklega glæsilegt klúbbhús sem tengist fjögurra stjörnu hóteli sem þarna stendur. Sérlega gott veitingahús er við völlinn og á veröndinni þar fyrir framan má sjá til strandarinnar, frá Torrevieja til La Manga del Mar Menor, ef skyggni er gott. Góð æfingaaðstaða er við völlinn en á þar hefur hinn vinsæli golfþjálfari Ívar Hauksson starfað sem yfirkennari. Vart er hægt að hugsa sér betri stað til að bæta sitt golf en einmitt á Campoamor.Las Ramblas

Las Ramblas er sannarlega ævintýralegur völlur – annað hvort elska golfarar að hata völlinn eða elska hann skilyrðislaust. Sem þýðir þá einfaldlega það að þetta er völlur sem allir golfarar verða að reyna sig á. Í það minnsta einu sinni.

Um er að ræða völl sem vígður var 1991, er par 72, 5807 metra langur og staðsettur milli tveggja mikilla gljúfra í námunda við strönd Miðjarðarhafsins. Einsleitni er orð sem að manni ætti ekki einu sinni að detta í hug þegar þessi völlur er annars vegar. Brautir og flatir hver um sig eru einstakar. Öll umhirða og viðhald er þarna til fyrirmyndar. 

Hönnuðurinn Pepe Gancendo hefur hlotið mikið lof fyrir mikla útsjónarsemi við útfærslu vallarins í þessu mikla landslagi, umhverfið er vaxið furutrjám og svo náttúrulegum vatnsfarvegum og niðurstaðan er óhjákvæmilega ákaflega krefjandi völlur. Á völdum stöðum hafa snjallir innfæddir sölumenn komið sér fyrir og selja golfkúlur í netpokum; nokkuð sem margir þiggja fegins hendi eftir að hafa mátt sjá á eftir kúlum sínum ofan í djúpa árfarvegi.

Hér skiptir öllu máli að vita hvað maður er að gera; leikskipulag þarf að vera á hreinu og svo náttúrlega getan til að slá þannig að skipulagið haldi. Lesandinn er líklega búinn að reikna það út að hér skiptir andlega hliðin, þessi sem gerir golfið að því sem það er, öllu máli: að halda haus. Á Las Ramblas munu golfarar komast að því úr hverju þeir eru gerðir. Að sigra völlinn er að sigra sjálfan sig.Villamartin

Villamartin er einn þekktasti og skemmtilegasti golfvöllur Spánar. Hann var vígður með viðhöfn árið 1972, 6132 metrar á lengd, par 72; brautirnar lagðar Bermúda-grasi og flatirnar með Pennacross. Hönnuður vallarins er Paul Putman; sá golfari sem hefur komið á Costa Blanca hefur heyrt um hinn gamalgróna Villamartin. Og hafa hann í hávegum.

Þegar golfarar mæta til leiks tekur glæsilegt klúbbhúsið á móti þeim; glæsilegur veitingastaður með útsýni yfir 18 flötina, verslun, æfingasvæði og púttvöllur: Allt eins og best verður á kosið til að koma þér í gírinn. Þegar sá sem þetta skrifar var þar á ferð var sérstakur maður tilbúinn og bauð uppá þrif á kylfum áður en haldið var á 1. teig. Allt er þannig úr garði gjört að ef menn komast ekki í sinn besta golfham er eitthvað að.

Villamartin er staðsettur á hæð í grennd við ströndina milli Torrevieja og Murica-flugvallarins og fyrstu níu holurnar eru leiknar í töluverðri hæð þannig að víða er stórkostlegt útsýni yfir Miðjarðarhafið. Seinni níu holurnar eru leiknar í skógi vöxnu dalverpi, þar setja gljúfur og gil sitt mark á hönnun vallarins sem vitaskuld hefur sín áhrif á leikinn. Hönnun vallarins er þannig að flestar kylfur í pokanum hljóta að koma við sögu, fjölbreytilegar brautir og flatir. Vilji menn fá sem allra mest út úr því að leika Villamartin er um að gera að skoða hann vel áður og leggja upp leikskipulag.

Villamartin er í uppáhaldi hjá mörgum kylfingum, og sem einn viðurkenndasti golfvöllur Spánar hafa þar, í tæplega hálfrar aldar sögu vallarins, vitaskuld verið haldin ófá mikilvæg mót, svo mörg reyndar að of langt er upp að telja. Völlurinn er gróinn og steinsnar frá má finna margar skemmtilegar krár og veitingastaði hvar upplagt er að fara yfir leikinn.Lo Romero

Lo Romero golfvöllurinn er tiltölulega nýr völlur en hann var opnaður árið 2008. Þetta er nýtískulegur völlur og í boði er, fyrir þá tæknivæddu, að hlaða niður á síma eða iPad sérstöku appi þar sem finna má greinargóðar lýsingar á vellinum og hverri holu fyrir sig.

Völlurinn er staðsettur í grennd við Costa Blanca Strandlengjuna og Costa Calida strendurnar. Hönnuðir eru þeir Jorge Gallén og Enric Soler, völlurinn er par 72, 6061 metrar að lengd. Þeir Gallén og Soler leggja uppúr því að kylfingarnir fái að reyna sem flestar kylfur í pokanum, og það gera þeir með úthugsaðri staðsetningu á fjölmörgum glompum vallarins sem og tjörnum. Völlurinn er ákaflega fallegur og við brautirnar má sjá appelsínu- og sítrónutré. 

Fyrri níu holurnar taka mjög mið af landslaginu en seinni holurnar eru hins vegar „hannaðar“; eða manngerðar. Þar sem Lo Romero er staðsettur þetta nærri hafi má gera ráð fyrir því að hafgola geti haft áhrif á leik.

Þekktasta hola vallarins og þó víðar væri leitað, einkennisholan sjálf, er sú 18. Brautin býður uppá ýmsar hættur, runna og glompur og og allan tímann blasir við áskorunin sjálf; flötin sem er eyja í tjörn. 356 metrar af gulum teig en 302 af þeim rauða. Þarna þurfa golfarar að hafa hausinn í lagi. Þeir högglengri og djarfari eiga möguleika á að ná inná flöt í tveimur höggum en þeir sem eru styttri gera best í því að leggja upp í öðru höggi og eiga þá stutt högg að holu, yfir vatnið.La Finca

La Finca er bráðskemmtilegur golfvöllur. Fremur nýlegur, völlurinn var vígður árið 2002 og er mjög „hannaður“, ef svo má að orði komast - útpældur. Það er hinn þekkti spánski golfvallahönnuður Pepe Gancedo sem á heiðurinn af því og hann fékk nokkuð frjálsar hendur við það verk. 

Völlurinn er par 72 en telst alllangur eða 6,394 metrar miðað við gula teiga en 5.411 af rauðum, breiðar brautir eru einkennandi en þarna eru margar vatnstorfærur sem gera það sérlega spennandi að spila La Finca. Ekki er vitlaust að hafa aukagolfkúlur í pokanum þegar La Finca er spilaður. Golfarar þurfa að útfæra sinn leik vel og ráða yfir ólíkum höggum ef þeir ætla að skora vel. Þeir sem kunna að sveifla drævernum munu verða einkar ánægðir með La Finca.

Flatirnar eru sérlega skemmtilega útfærðar, stórar og hraðar. Allar holurnar eða brautirnar, hafa sín sérkenni en sérstaklega eftirtektarverðar eru 5. hola en þar er flötin á eyju og sú 6. sem þykja alveg einstaklega fallegar, umhverfið er einstakt en fossar og lækir setja mark sitt á það. 

Völlurinn heyrir til La Finca-hótelsins, sem er í fremstu röð á Spáni og það þarf því ekki að sökum að spyrja; allur aðbúnaður er til mikillar fyrirmyndar, ljómandi veitingasala, æfingaaðstaða eins og best verður á kosið og golfbúð sem gaman er að skoða, svo eitthvað sé nefnt.Vistabella

Vista bella er talinn einn best hannaði völlur Spánar enda er það enginn annar en Manuel Pinero, sá heimsþekkti golfari, sem teiknaði völlinn. Hann er sérstakur að því leytinu til að þetta er 11 holu golfvöllur og verður því að spila nokkrar holur tvisvar vilji menn fara 18. En, það virðist ekki trufla menn nema síður sé og fær völlurinn bestu meðmæli þeirra sem hann hafa spilað. Vista bella var tekin í notkun árið 2010, sem gerir hann einn af nýrri völlum Alicante-svæðisins, hann er par 73, 5.844 metrar af gulum teig og 4.991 metrar af rauðum.

Við hönnun vallarins er mikið lagt uppúr því að völlurinn sé í góðri sátt við umhverfi sitt. Vista bella er staðsett í einstöku landslagi og eru jurtir, tré og runnar sömu tegundar og einkenna nærumhverfið, gróðursett skipulega á þeim 34 hektarar sem lagðir eru undir völlinn. Þeirra á meðal barrtré sem eru einmitt merki golfklúbbs staðarins.

Glompur eru vandlega staðsettar, þarna eru vatnshindranir og eins gott fyrir golfara að leggja leik sinn vandlega upp fremur en láta kylfu ráða kasti. 

Við Vista bella, eins og flesta golfvelli í þessari golfparadís sem Allicante-svæðið er, má finna ljómandi fínan veitingastað þar sem panta má sér veitingar og njóta þeirra með einstakt útsýni fyrir augum yfir þennan völl, sem svo vel er látið af. Þar má að auki finna æfingasvæði og púttvöll, golfbúð og ef menn eru í miklum ham og ekki á hraðferð má meira að segja bregða sér í keilu þarna við völlinn.Alicante golf

Þennan völl teiknaði sjálfur Severiano Ballesteros og í raun þarf enga aðra ástæðu til að sækja þennan völl heim; slík goðsögn sem Seve er. En, við setjum ekki punktinn þar. Eftir ýmsu er að sækjast öðru en því að geta sagt frá því að hafa spilað völl eftir Ballesteros. Alicante golf er einstakur völlur, sá eini á öllum Iberíu-skaganum og þó víðar væri leitað, (par 72, 6057 metrar af gulum teigum en 538 af rauðum) sem er með sex par þrjú, sex par fjögur og sex par fimm holur. Þetta má heita að rími ágætlega við þann frumleika sem einkenndi leik Ballesteros.

Fyrir þá sem eru högglangir eru ágætir möguleikar á að ná fugli á öllum par fimm holunum þó flatirnar séu vel varðar. Á vellinum eru sjö vatnshindranir og, eins og gefur að skilja, er betra að halda kúlum sínum þurrum vilji menn skora vel. Á fjórtándu holu er hindrun sem er algerlega einstök, þá þarf að fara hjá rústum „Villa Ferrer“, byggingu sem er allt frá tímum Rómverjanna eða 1 ári fyrir Krist. Þessar rústir uppgötvuðust þegar völlurinn var byggður.

Umtalað er hversu vel þessum velli er vel við haldið, opinn alla daga ársins nema á jóladag og ekki ætti að þurfa að minna lesanda á mikilvægi þess að mæta vel heitur á 1. teig. Við Alicante golf er öll aðstaða til fyrirmyndar; frábær æfingaaðstaða þar sem menn slá af grasi, glompur og púttvellir sem um að gera er að reyna til að vera upp á sitt besta þegar fyrsta höggið er slegið. Því sérstök upplifun er að spila þennan völl og menn ættu ekki að láta sér slíkt tækifæri fram hjá sér fara, láti það á sér kræla.Roda golf

Roda golf sker sig að nokkru leyti úr þeirri ríkulegu golfvallaflóru sem um ræðir á Alicante-svæðinu – en, ákaflega skemmtilegur; völlurinn er staðsettur á Costa Calida, er samhangandi við strandsvæðið þar og glæsilega orlofshúsabyggð. Völlurinn er par 72, hann er 5819 metra langur af gulum teigum, 5244 af rauðum en hönnuðurinn er hinn virti Dave Thomas. Ekki er mikið landslag undirliggjandi í vellinum sjálfum, hann liggur á flatlendi en Thomas hafði þeim mun frjálsari hendur. Þarna eru ýmsar vatnshindranir og ekki vænlegt að spila beint af augum. Hér þarf úthugsað leikskipulag ef menn ætla ekki að lenda í vandræðum og jafnvel djörfung á stundum – ef menn vilja skora. Sennilegt má teljast að hverri kylfu í pokanum verði sveiflað.

Fyrsta holan gefur tóninn. Par fimm hola, um 500 metra löng og þeir högglengri verða strax að gera upp við sig hvort þeir ætli að reyna að fljúga kúlunni yfir glompu hægra megin eða reyna að slá öruggt til vinstri. Annað höggið þarf að vera nákvæmt til að undirbúa innáhögg því flötin er vel vernduð af stórri glompu vinstra megin frá golfaranum séð. Og þannig má áfram telja. 

Sjöunda holan er til að mynda spennandi, reyndar fremur ógnvekjandi ef menn eru þannig innstilltir, flötin úti á eyju og um 170 metra löng. Flötin er fyrir framan klúbbhúsið og því dugir ekki að vera feiminn. 

Eins og áður sagði tengist völlurinn lúxus-orlofshúsabyggð við ströndina. Klúbbhúsið er í stíl við þetta; á tveimur hæðum og ríkulega búið: Verðlaunaður veitingastaður, verslun, búningsherbergi, gufubað, sturtur og sjónvarpsherbergi. Gestir þurfa ekki að láta sér leiðast á Roda golf.El Plantio

El Plantio golfvöllurinn er hannaður af Manuel Ferri Sanchez og tók til starfa árið 1993. Þetta er par 72 völlur, 5887 metra langur af gulum teigum en 5289 af rauðum. 

Þetta er völlur sem hentar þeim sem slá tiltölulega beint vel, því brautirnar eru allar rammaðar inn með trjám á báða bóga. Ekkert þó til að hafa þungar áhyggjur af því brautirnar eru tiltölulega breiðar og þægilegar, enginn kargi en ef menn lenda út í trjám gæti það kostað högg. Hér gætu menn lækkað forgjöf sína með góðu skori.

Eins og Spánverjar stæra sig gjarnan af þá er El Plantio völlurinn hannaður þannig að hann sé í sátt við umhverfi sitt. Sérstaklega er gaman að skoða hvernig pálma- og ólífutrjám hefur verið plantað markvisst og er áveitukerfi notað bæði til að vökva þau sem og til að skapa vatnshættur.


Mar Menor Golf

Mar Menor golfvöllurinn er einstaklega skemmtilegur. Upphaflega var völlurinn hannaður af hinum þekkta golfvallaarkítekt David Thomas, það er fyrri níu holurnar en þegar við hann var byggt og hann endurnýjaður var það hönnunarteymi Nicklaus sem stjórnaði verkinu.

Þetta er einstaklega fallegur völlur, einkennandi eru hvítar og miklar glompur og pálmatré auk tjarna. Þetta er par 72, fyrri níu holurnar eru 3,275 metrar en seinni eru 2,878 metrar og er þá miðað við hvíta teiga. Þetta eru tvær flugur í einu höggi; spila völl sem bæði er hannaður af Thomas og Nicklaus.

Völlurinn var vígður árið 2005 og var það upphaf hinnar kunnu Nicklaus Design-slóð, sem samanstendur af golfvöllum og orlofsbústöðum víðsvegar um Evrópu. Verkefnið heitir Polaris World og gengur út á að hanna golfvöll og við er byggð, verslanir, barir og veitingastaðir; allt sem uppfyllir draum kylfingsins. Það var því talverður metnaður lagður í hönnunina. Og það skilar sér meðal annars í því að hver og ein einasta hola er sérstök og kylfingurinn þarf að halda einbeitingunni allan tímann; leggja leik sinn vel upp. Fjölmargar hindranir verða í vegi hans og spila tjarnir stórt hlutverk. Áræði og sterkar taugar koma að góðum notum á þessum velli. Sérstaklega tilkomumikið er vatnasvæðið í kringum 13., 14. og 15. holu og þar þurfa menn á öllu sínu að halda.

Staðsetningin vallarins er Torre Pacheco, Murcia sem aðeins er í tíu kílómetra fjarlægð frá Murcia flugvellinum. Við völlinn er svo staðsett samnefnt fimm stjörnu glæsihótel, og er þar að finna spa, heit böð ... í raun alla slökun hugsanlega, auk glæsilegs veitingastaðar.El Valle

El Valle-golfvöllurinn er staðsettur í ákaflega fallegum, villtum og óbyggðum dal eða dalverpi. Þetta er á mörkum eyðimerkur sem setur mikinn svip á völlinn. Mikið er lagt uppúr að þessi til þess að gera stutti völlur, en hann er par 71, falli vel inn í landslagið. Völlurinn var opnaður á því herrans ári 2007. 

Eins og segir í golfvallalýsingu er þessi völlur ekki endilega hugsaður fyrir þá sem slá sem allra lengst heldur fremur þá sem leggja uppúr því að hugsa sinn leik og eru nákvæmir. Völlur fyrir hinn hugsandi kylfing – sem jafnframt er gæddur ímyndunarafli og má heita lunkinn í stutta spilinu. Völlurinn er þó ekki snubbóttur nema síður sé, heilir 6355 metrar á lengd, en er þá miðað við hvíta teiga.

Nokkurt landslag er í vellinum og erfiður kargi getur gleypt kúluna ef menn slá af leið. Þá eru tvær tjarnir á vellinum sem koma við sögu á 13. og 14. holu og svo tveimur síðustu holunum: 17. og 18. Völlurinn er því býsna krefjandi og lagt uppúr að menn viti hvað þeir eru að gera.

Líkt og með Mar Menor er El Valle liður í Polaris World-verkefninu mikla. Sem þýðir einfaldlega að hönnunin er Nicklaus-teymisins. Mun þetta hafa verið lagt upp sem eitt metnaðarfyllsta sem telst til Polaris World. Við völlinn er allt sem nöfnum tjáir að nefna og tengist golfi, allt það sem hver kylfingur þarf og vill: Æfingasvæði, verslanir, veitingastaðir og krár...La Torre Golf

La Torre er hannaður af sjálfum Jack Nicklaus og hans mikla og virta golfvallahönnunarteymi. La Torre Golf Resort er lúxus búsetukjarni sem saman stendur af fimm stjörnu íbúðum, krám, veitingastöðum, hóteli, kjörbúð og ýmsu öðru sem myndir þorp sem hverfist um 18 holu golfvöllinn. La Torre Golf telst til Polaris World sem þýðir einfaldlega að þarna er allt sem hugurinn girnist; ef þú ert kylfingur. Völlurinn er staðsettur fáeina kílómetra frá Mar Menor-ströndinni og þarna iðar allt af lífi. Þarna nýtur fólk lífsins – um er að ræða sannkallaða sumarleyfisparadís. Völlurinn sjálfur er í sama gæðaflokki.

La Torre er par 71 golfvöllur, 6,355 metra langur, lagður og lagaður að fallegu landslagi sem þarna er til staðar. Fimm hektarar eru lagðir undir glompur sem hefur verið komið fyrir kænskulega, kylfingar þurfa að vera vakandi fyrir þeim sem og þremur allstórum tjörnum, svo stórum að Spánverjar tala um vötn í því samhengi, sem koma við sögu á sex brautum vallarins. La Torre er sagður einkennandi fyrir þá hönnun sem Jack Nicklaus leggur upp með, kylfingar þurfa að vera vel vakandi fyrir því hvaða kylfur þeir velja nánast á hverri einustu braut. Og sérstaklega má vara við tveimur par 3 holum vallarins, þeirri 9. og 11. – stórhættulegar báðar tvær og geta hæglega rústað góðu skorkorti ef menn halda ekki vöku sinni og eru ekki þeim mun betur á boltanum.

Auk þess sem tilþrifamiklar glompurnar greina að brautirnar ber að nefna að allt umhverfið mjög gróið, skógur rammar völlinn og brautirnar af og skapa afar skjólgott og friðsælt umhverfi.La Serena Golf

La Serena-golfvöllurinn er hannaður af Manuel Piñero, þeim kunna golfara sem í tvígang spilaði með liði Evrópu í Rydernum. 

Þó völlurinn allur sé tiltölulega flatur, og ekki mjög langur þá ættu menn að varast þá hugmynd að um sé að ræða léttan völl. Vatnshindranir koma við sögu á 16 af 18 brautum vallarins auk þess sem staðbundnir vindar á vestanverðu Miðjarðarhafssvæðinu kunna að setja strik í reikninginn. En, ef kylfingarnir ná að höndla þessa þætti gætu þeir skorað ágætlega. Hér snýst allt um að vera nákvæmur og á boltanum. Völlurinn vinsæll meðal heimamanna og hefur verið lengi og hafa verið haldin mörg mót á La Serena í gegnum tíðina.

La Serena er par 72, lengd vallarins er frá gulum teigum 5884 en af rauðum 4923. Völlurinn var vígður árið 2006. Eins og áður sagði er völlurinn flatur en fallegur og setja pálmatré mark sitt á útsýnið.

Staðsetning vallarins er í grennd við Mar Menor-ströndina, byggingar sem sjá má í grennd vallarins eru í skemmtilegum spænskum arkítektúr, þar má til dæmis sjá 500 ára gamlan varðturn í kastalastíl, sérstaklega byggður og hannaður til að hafa auga með sjóræningjum sem áttu það til að herja á íbúa á öldum áður. Klúbbhúsið er sérlega fínt, stórt og þar má finna alla helstu þjónustu sem snýr að þörfum kylfinga.Hacienda Del Alamo Golf

Víkur nú sögunni að velli sem er draumur högglengri kylfinga. Hér fá menn að viðra sín brautartré, því um er að ræða einn lengsta golfvöll Spánar. Völlurinn er 6,724 metra langur, par 72 og geta þeir kylfingar sem eru með miðlungs eða hærri forgjöf sparað sér drauma um marga fuglana á Hacienda, og alls ekki á hinum löngu par 4 holum vallarins. Þannig er andlegi þátturinn ekki síst mikilvægur hér; að ganga sáttur frá hverri holu með sitt lögskipaða boogie, ef það er tilfellið. Hér kemur í ljós úr hverju menn eru gerðir.

Völlurinn var vígður árið 2006 og hannaður af sjáfum Dave Thomas; hugsaður sérstaklega til að hver kylfingur fái kannað sína getu. Völlurinn liggur um hnetu- og olífutrjáaekrur. Nokkrar tjarnir eru á vellinum og þegar allt leggst saman er útsýnið yfir völlinn og svæðið allt stórkostlegt.

Margar hinna áðurnefndu par 4 hola eru vel varðar með djúpum glompum, fyrir framan og til hliðar við flatirnar þannig að kylfingurinn stendur stöðugt frammi fyrir því vali hvort hann eigi að láta vaða eða leggja upp og treysta á stutta spilið. 

Nefna má ýmsar athyglisverðar holur til sögunnar, að telja þær allar upp væri að æra óstöðugan. En kylfingar ættu að hafa 6. holuna í huga sem býður uppá krefjandi upphafshögg og þá er sú 11 minnisstæð, en þar er sérlega vandasamt að nálgast flötina. Og 18. holan er erfið par 5, vatn vinstra megin flatar: Vart hægt að hugsa sér ákjósanlegri aðstæður til að útkljá tvísýna viðureign. 

Þá er gaman að geta þess að stjórnendur vallarins hafa náð samkomulagi við sjálfan Miguel Angel Jimenez að vera vallarstarfsmönnum til sérlegrar ráðgjafar. Þetta er keppnis, eins og krakkarnir myndu segja – hátt skrifaður völlur. 

Mikið er lagt í æfingasvæði á Hacienda Del Almo vellinum, sex æfingavellir, höggsvæði og tveir púttvellir.Bonalba golf

Bonalba er gróinn völlur sem staðsettur er alveg við ströndina: Playa de San, í útjaðri Alicante-borgar. Það er því sjávarsýn sem tekur á móti kylfingum á Bonalba.

Völlurinn er 6.096 metra langur af gulum teigum, 5329 af rauðum, par 72 en hönnuðurinn er Ramon Espinosa. Völlurinn var opnaður árið 1995 þannig að hér er um gamalgróinn völl að ræða. Pálma- og furutré eru alltum kring og inni á vellinum til að marka af brautir. Svæðið allt er einstaklega gróðursælt.

Bonalba hefur verið vettvangur fjölda golfmóta og þykir hann nokkuð erfiður. Slope-ið er 132 miðað við gulu teigana og geta menn því ímyndað sér hversu erfiður völlurinn getur reynst. Fyrri níu holurnar reyna á tækni hvers kylfings, sneiða þarf hjá þremur af fimm tjörnum vallarins; holur 6 til 9 kalla heimamenn Amen Corner. Ef menn sleppa þaðan sæmilega óskaddaðir er góður möguleiki á ágætu skori.

Seinni níu holurnar eru lengri og þar er frekar að sjávargolan geti sett strik í reikninginn. Bonalba er fjölbreytilegur og gullfallegur völlur. Villaitana-Levante golf

Enn einn völlurinn á þessu svæði sem hannaður er af sjálfri goðsögninni Jack Nicklaus og hans fólki: par 72, 5.777 metra langur af gulum teigum og 4687 af rauðum, þannig að völlurinn er í meðallagi langur.

Samkvæmt golfvallarlýsingum er Villaitana-Levante sagður dæmigerður Nicklaus-völlur: í amerískum stíl, þröngum brautum og listilega vel hönnuðum og mótuðum flötum sem vel staðsettar glompur verja. 

Kylfingar fá notið gullfallegs útsýnis við leik á Villaitana-Levante, með fjallahring á aðra hönd og sjávarsýn yfir Miðjarðarhafið á hina. Engin byggð er við völlinn þannig að við blasir ósnortin náttúran og furuskógar. Kylfingar eru vitaskuld göngugarpar upp til hópa, en hér er eiginlega ekki hægt að mæla með öðru en að fara um á golfbíl, því hæðarmismunurinn er það mikill. 

Athugið að flatirnar geta reynst mjög hraðar, þeir sem þarna hafa spilað vara sérstaklega við því og er mönnum ráðlagt að taka varlega á pútternum.

Tvö hótel, fjögurra og fimm stjörnu eru við völlinn og er allur aðbúnaður í dúr og takti við það. Kylfingar hafa aðgang að glæsilegum veitingastöðum hvar í boði eru góðar veitingar, og ættu vitaskuld að nýta sér það.Villaitana-Poniente golf

Um er að ræða völl sem er í miklu uppháhaldi meðal margra kylfinga, þá vegna þess hversu sérstakur hann er. Þetta er systurvöllur, eða litli bróðir, Villaitana-Levante golfvallarins, þá í þeim skilningi að hann er miklu styttri eða 3.858 metra langur og par 62.

Völlurinn var vígður árið 2007 og einnig hannaður af Jack Nicklaus og hans teymi. 

Völlurinn liggur í hlíðum við Miðjarðarhafið, fjalla- og sjávarsýn blasir við en allt umhverfið er vaxið fögrum furuskógi. Hönnunin býður uppá fjölbreytilegt golf, og þó hann sé styttri en Villaitana-Levante er þetta krefjandi völlur. Einkum er spurt um hæfni með styttri járnin. La Peraleja golf

Golfklúbburinn La Peraleja verður að teljast með betur heppnuðum svæðum sinnar tegundar við Miðjarðarhafið og þó víðar væri leitað; í raun draumur golfarans. Þarna er ákaflega gaman að koma og skoða sig um því golfvöllurinn er sérstaklega hannaður í orlofshúsabyggð og klúbbhúsið einnig. Golfvöllurinn fellur inní umhverfið eins og flís við rass.

Völlurinn sjálfur er hannaður af Severiano Ballesteros, hann var opnaður árið 2008, er par 72, 6.089 metrar af gulum teigum og 5082 af rauðum.

Völlurinn liggur milli fjölmargra hóla og einkennandi fyrir hann eru fjölmargar tjarnir sem eru í leik. Hönnun Seves er rómuð og eru margar holurnar eftirminnilegar. Má þar nefna 17. holu, par 4 351 metrar á lengd, sem þykir einstaklega vel heppnuð. Vatn er kylfingum á vinstri hönd og brautin mjó alla leið og varða glompur leiðina á hægri hönd. Þarna skiptir öllu að geta slegið beint og ef það lánast eru kylfingar í ágætum málum.

Klúbbhúsið, sem áður hefur verið nefnt, er skemmtilega hannað en veitingastaðurinn þar er sérstaklega upp settur þannig að útsýni er gott yfir völlinn. Alenda golf

Alenda-golfvöllurinn var vígður árið 1997, par 72, 6.257 metra langur völlur og er hönnuður vallarins Roland Favrat. Hann lagði ríka áherslu á að völlurinn væri í ýtrustu sátt við umhverfið, völlurinn liggur í hlíðum Aguilas-fjöll við Miðjarðarhafið sem þýðir að það er talsvert landslag í Alenda-golfvellinum auk þess sem njóta má útsýnis yfir hafið. Völlurinn var opnaður árið 1999 þannig að hann telst ekki gamall en þó vel gróinn. 

Völlurinn er vel hannaður sé litið til þess að ekki er langt frá flöt og teigs næstu holu. Þannig að það ætti að vera hægt að halda ágætum leikhraða á Alenda. Fyrstu níu holurnar eru tiltölulega þægilegar, miðlungslangar með víðum brautum sem rammaðar eru inn með carob-, pálma- og furutrjám en völlurinn tekur nokkrum stakkaskiptum á seinni níu holunum; þar þrengist um og þá þurfa kylfingar að hafa einbeitinguna í fullkomnu lagi; þar skiptir meiru máli að vera á braut en slá langt.

16. og 18. holan eru varhugaverðar og geta hæglega rústað góðu skorkorti. Flatirnar á þessum mjög svo skemmtilega velli eru áhugaverðar. Þær eru hraðar og talsvert landslag í þeim, þannig að menn þurfa að reikna út púttlínuna af nokkurri kúnst. 

Þetta er völlur sem er í uppáhaldi margra sem hann hafa spilað, hann þykir henta vel flestum hvar svo sem þeir eru staddir með sína forgjöf. Og er umhirða og viðhald á vellinum með ágætum.

Við völlinn er að finna afbragðs æfingaaðstöðu, púttvöll, sérhæfða verslun fyrir kylfinga, glæsilegan veitingastað þar sem lögð er áhersla á Miðjarðarhafsmatseðil og ljómandi kaffihús þar sem fá má kaffi eða kaldann út á verönd með ljómandi útsýni yfir golfvöllinn.Hacienda Riquelme golf

Hacienda Riquelme-golfvöllurinn er hannaður að sjálfum Jack Nicklaus sem fékk algerlega frjálsar hendur. Hönnun vallarins er úthugsuð og gerir miklar kröfur til kylfinga, þeir þurfa helst að ráða yfir ýmsum tegundum högga og ráða við flestar kylfurnar í töskunni. Þetta er ekkert endilega völlur fyrir byrjendur. Glompur og vatnshindranir eru ekki uppá punkt á Hacienda Riquelme.

Völlurinn var vígður árið 2007, hann er par 72 og 6416 metra langur sé miðað við hvíta teiga. Stórar tjarnir, svo miklar að jafnvel má tala um vötn, setja svip sinn á völlinn og eru vitaskuld í leik. Stórir bönkerar og djúpir eru líka einkennandi. Á brúnum þeirra er svo yfirleitt allmikill kargi, þannig að það getur reynst vandasamt að ná sér uppúr þeim.

Brautirnar eru tiltölulega breiðar en það þýðir þó ekki að menn geti leikið kæruleysislega, ef kylfingar ætla sér að ná góðu skori þurfa þeir að leggja sinn leik vandlega upp.

Flatirnar eru í stíl Nicklaus; stórar en í þeim eru mikil brot. Sumar hverjar liggja á nokkrum pöllum og ef menn eru tiltölulega nákvæmir í járnahöggunum ættu þeir fyrir alla muni að nýta sér þá hæfileika sína þegar þeir slá inná flatirnar. Og reyna að finna flaggið því þarna eru þrípútt nokkuð sem þeir sem hafa spilað Hacienda Riquelme þekkja of vel. 

Umhverfi golfvallarins er skemmtilegt, eyðimerkurlandslag og í kringum völlinn eru vinsælar orlofsíbúðir. Hacienda Riquelme er heildarkonsept sem þýðir að við völlinn að finna flest það sem gleðja má eins og einn kylfing. Verslun með golfvarningi, æfingaaðstaðan er mjög góð; puttvöllur, glompur til æfinga og höggbrautir. Í klúbbhúsinu er ágætur veitingastaður og kaffihús – á Spáni er litið svo á að það fylgi að menn geri vel við sig í mat og drykk eftir golfhringinn.La Manga north golf

La Manga er sannkölluð golfparadís. Þar er að finna þrjá frábæra golfvelli. Norðurvöllurinn, sem hér um ræðir, er hannaður af einum fremsta golfvallahönnuði heims, arkitektinum Robert Dean Putman. 

Völlurinn er par 71, 5,429 metra langur af gulum teigum en 4,964 af rauðum. Það sem einkennir þennan völl eru pálmatré sem umkringja völlinn og eru víða í leik, gil og lækir og svo tjarnir. Norðurvöllurinn er eilítið styttri en Suðurvöllurinn, með þrengri brautum og stærri flötum. 

Kylfingar þurfa að slá oft yfir vatnstorfærur og fara yfir brýr sem setja sinn svip á völlinn.

Þeir sem eru góðir með pútterinn ættu að kunna vel að meta La Manga north-gólfvöllinn: Flatirnar á La Manga north eru eftirtektarverðar. Í þeim er mikið landslag, og þær eru víða á pöllum. Þess sést staður strax á 2. holu, en þar er fötin á þremur pöllum. Hér er því lykilatriði að vita hvað maður er að gera og kunna á járnin; innáhöggin skipta miklu máli sem og að vera á braut.

Eins og áður sagði er La Magna golfklúbburinn sannkölluð golfparadís. Vellirnir allir eru verðlaunaðir; allt svæðið er sérstaklega hannað að teknu tilliti til golfíþróttarinnar. Þarna er allur pakkinn til staðar; klúbbhúsið, sem staðsett er milli norður- og suðurvallar frábært, veitingastaður, bar og æfingaaðstaða í fremstu röð.